Innskráning í Karellen

Leikskólinn Ásar opnaði sumarið 2001 og hefur frá upphafi starfað að öllu leyti eftir námsskrá Hjallastefnunnar. Skólinn kom vel úr garði gerður frá skapara sínum; bæjarverkfræðingi Garðabæjar og er byggingin sem teiknuð er af Albínu Thordarson glæsileg umgjörð um starfið.

Skólinn skiptist í fjóra kjarna frá upphafi sem nefnast eftir litum; Guli-, Rauði-, Græni-, og Bláikjarni en haustið 2002 bættist Litlikjarni við þar sem yngstu nemendurnir fá tækifæri til þess að búa sig undir leikskólalífið við verndaðar aðstæður. Elstu nemendunum hefur síðan staðið til boða að hefja formlegra nám í Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum.

Það er mikil samvinna milli Hjallastefnuskólanna í Garðabæ og mynda þeir nokkurs konar samfellu, enda er mikil samvinna á milli þessara skóla en það eru Litlu-Ásar, Ásar og Barnaskóli Hjallastefnunnar á Vífilstöðum.

Rekstraraðili Ása er Hjallastefnan ehf. en skólinn er rekinn á grundvelli þjónustusamnings við Garðabæ. Faglegur ráðgjafi er Margrét Pála Ólafsdóttir höfundur Hjallastefnunnar.

Hátt hlutfall fagmenntunar meðal starfsfólks, menntandi vinnuumhverfi fyrir bæði starfsfólk og börn, virk foreldraþáttaka og elskulegt andrúmsloft eru þeir þættir í starfinu okkar sem við erum stoltust af og skila okkur þeim árangri sem við sækjumst eftir; ánægðum börnum, ánægðum foreldrum og ánægðu starfsfólki.

© 2016 - Karellen